Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir og álit á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá 1996 til 1. janúar 2011

Ísafjarðarbær - Sérstakt hæfi einstakra nefndarmanna í félagsmálanefnd

Grein

Ísafjarðarbær

Ingibjörg María Guðmundsdóttir, forstöðumaður skóla- og fjölskylduskrifstofu

Hafnarstræti 1, pósthólf 56

400 Ísafjörður

 

Reykjavík, 18. október 2000

Tilvísun: FEL00090042/1001/GB/--

  

Vísað er til erindis yðar dags. 11. september sl., þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins varðandi hæfi tveggja fulltrúa í félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar til að fjalla um tiltekið mál.

           Varðandi hæfi formanns nefndarinnar sem jafnframt starfar sem forstöðumaður svæðisskrifstofu fatlaðra á Vestfjörðum, telur ráðuneytið að það eitt og sér að formaðurinn gegnir starfi þar sem hún kann á síðari stigum að fjalla um sama mál leiði ekki til vanhæfis hennar við meðferð málsins í félagsmálanefnd. Á hinn bóginn telur ráðuneytið rétt að benda á að hugsanlegt er að þátttaka hennar við umfjöllun málsins í félagsmálanefnd leiði til þess að hún verði vanhæf til að fjalla um sama mál í starfi sínu á svæðisskrifstofunni, ef málið kemur til kasta skrifstofunnar.

           Hvað varðar fyrrum félagsmálastjóra Ísafjarðarbæjar sem nú situr í félagsmálanefnd bæjarins telur ráðuneytið ekki nægar upplýsingar fyrir hendi til að taka afstöðu til hæfis hans í þessu máli. Telur ráðuneytið rétt að benda á að í 5. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er kveðið á um að sveitarstjórnarmanni sem veit hæfi sitt orka tvímælis ber að vekja athygli á því. Ákvæðið gildir einnig um nefndir sveitarfélaga, sbr. 2. mgr. 47. gr. laganna.

           Ber því félagsmálanefnd, ef ástæða þykir til, að fjalla sérstaklega um hæfi viðkomandi nefndarmanns áður en málið er tekið til efnislegrar umfjöllunar.Við þá afgreiðslu er rétt að nefndin hafi í huga hvort fyrri afskipti viðkomandi nefndarmanns hafi verið slík að þau kunni að móta afstöðu hans til málsins og einnig hvort samskipti hans við aðila málsins hafi verið með þeim hætti að þeir kunni að hafa ástæðu til að draga óhlutdrægni hans í efa, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í álitum sem birt eru í ársskýrslum hans SUA 1990:113, SUA 1993:264 og SUA 1995:161 (168).

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum